Matargagnrýni 26. ágúst 2013 -- Íslenska Hamborgarafabrikkan (Akureyri)

Undirritaður fór á Íslensku Hamborgarafabrikkuna 26. ágúst 2013 og snæddi kvöldverð


Aðalréttur var: Húsdýragarðurinn
Þetta er ungnauta og lambabrogari (sitt í hvoru lagi) með beikoni og eggi o.s.frv. (sjá matseðil á fabrikkan.is nr. 12). 

Rétturinn var framreiddur á passlegum diski og var skammturinn hæfilega stór.

Hinsvegar voru hlutföllinn ekki alveg í lagi þar sem aðeins of lítið var af frönskum kartöflum miðað við hamborgaran. Rétturinn var mjög bragðgóður og passlega kryddaður og fær staðurinn + fyrir grillbragðið sem meira að segja var af kjötinu sem auk þess var passlega eldað. 

Skilti hafði verið stungið í miðjan borgarann sem er nokkuð sniðugt því oft þegar maður snæðir svona borgara vill hann liðast í sundur en þarna var komið í veg fyrir það. Frönskurnar voru full mjúkar auk þess sem þetta voru "venjulegar sjoppufranskar". Passlegur skammtur fylgdi af tómatssósu en ef menn þurftu meira var flaska staðsett á borðinu. Skálin sem tómatssósan var framreidd í skemmtilegri skál sem var einhverskonar míní-útgáfa af bökunarskál sem margir eiga í eldhúsinu. Maturinn var vel eldaður og passlega heitur þegar hann kom á borðið. Rétturinn mettaði vel. Biðtími var 7 mín. sem er passlegt.
Aðalréttur fær því einkunnina 8

Eftirréttur var: Skyrterta fabrikkunnar
Kakan var borin fram á hæfilega stórum disk með jarðarberjakompotti sem var svona hálfpartinn sullað á diskinn og var ekkert búið að skreyta diskinn. Bragð kökunar var hálf dauft og ekki eins ferskt bragð og er yfirleitt af skyrtertum. Biðtími 3 mín.
Eftirréttur fær því einkunnina 6,5

Þjónustan var á heildina litið í lagi. Þjónarnir voru snyrtilegir til fara og kurteisir, þjónarnir gátu mælt með réttum (öðrum en þeim dýrasta). Þjónar voru þó ekki alveg með á hreinu hvort að gestir höfðu pantað og kom til dæmis einn til undirritaðs til að vita hvort hann hefði pantað sem er þó betra heldur en ef undirritaður hefði ekki verið búinn að panta og enginn hefði komið. Þjónar fylgdust ekki nógu vel með hvort allt væri í lagi hjá gestunum, einn þjónn meira að segja var í þónokkurn tíma að spjalla við vinkonu sína sem var gestur á staðnum, það þykir undirrituðum ekki heppilegt. Einnig er dregið niður fyrir að manni var ekki boðið uppá tannstöngla fyrr en við útgangin
Þjónustan fær því einkunnina 5

Útlit veitingahússins er smekklegt. Hnífapör voru mjög vel pússuð. Dregið er niður fyrir að ekki eru notuð alvöru glerglös á staðnum en notuð eru plastglös. Undirritaður var hinsvegar ósáttur við að borðið sem hann var settur við var óhreint og sýndist honum það vera þannig að þegar gestir yfirgáfu borðin voru þau bara tæmd en ekki þrifin. Salurinn er ekki eins opinn og á mörgum öðrum stöðum sem er gott því þá var ekki eins mikill hávaði og er á mörgum öðrum stöðum. Hinsvegar var tónlistin full hátt stemd og mikill hávaði er frá eldhúsi ef maður situr framan í salnum (við götuna) þar sem gat er inn í eldhúsið þeim megin. Gólfið var heldur ekki vel þrifið og þótti undirrituðum það frekar óhreint miðað við hvað var lítið að gera á staðnum. Gluggar voru einnig óhreinir en sjá mátti fjölda handafara á þeim. Undirrituðum þykir verðið á staðnum full hátt en gosglas kostar 335 kr., aðalrétturinn 2395 kr., og skyrtertan 995 kr., samtals 3725 kr.
Einkunn fyrir annað er því 3

Samanlögð einkunn verður því: 5,6

Matargagnrýni 20. júlí 2013 -- Hótel Hellnar

Undirritaður fór ásamt tveim öðrum á Hótel Hellnar (á Snæfellsnesi) 20. júlí 2013 og snæddi kvöldverð

 

Forréttur var: Humarsalat

Rétturinn var framreiddur á viðeigandi diski og var rétturinn mjög snyrtilega framreiddur á disknum. Rétturinn var bragðgóður og skammturinn var stór miðað við forrétt. Hlutföll voru ekki alveg í lagi þar sem of mikið salat var miðað við magnið af humri. Fyrir þennann rétt er maður hinsvegar að fá mikið fyrir peningin því hann kostar ekki nema 1500 kr.

Forrétturinn fær því einkunnina 9

 

Aðalréttur var: Nautasteik
Rétturinn var framreiddur á passlegum diski og var skammturinn hæfilega stór.

Hinsvegar voru hlutföllinn ekki alveg í lagi þar sem of mikið var af grænmeti og kartöflum á disknum miðað við kjöt. Rétturinn var bragðgóður en kjötið var full vel kryddað. Hitastig var fullkomið þegar diskurinn kom á borðið en biðtíminn var 34. mín. sem þykir full mikið.

Aðalréttur fær því einkunnina 6

 

Eftirréttur var: Rjómaís frá Erpsstöðum

Rétturinn var mjög góður og framreiddur á mjög passlegum diski sem var fallega skreyttur

Skammtastærð var passleg.

Eftirréttur fær því einkunnina 10

 

Þjónustan var á heildina litið góð. Starfsmaður í gestamóttöku kunni ekki íslensku sem gerði það að verkum að mikill misskilningur fór í gang, þjónar töluðu ensku við hópinn sem varð til þess að við héldum að þeir kunnu ekki íslensku að því að móttökustarfsmaðurinn gerði það ekki. Þetta fattaðast ekki fyrr en greiða átti fyrir máltíðina, þá var það íslenskur maður sem sá um það og þjónninn heyrði að undirritaður talaði íslensku, ekki verður þetta þó til frádráttar í einkunn þar sem um algjöran misskilning var að ræða sem bjargaðist í lokin. Mikið var að gera á staðnum en þjónusta fór samt vel fram. Þjónar gátu mælt með réttum (öðrum en þeim dýrasta). Þjónar fylgdust vel með hvort eitthvað vantaði. Þjónar voru mjög almennilegir en full stressaðir og missti einn hnífapör á gest við hreinsun borðs. Þeir voru einnig snyrtilegir til fara og undirritaður tók eftir því að þjónar báru matinn alltaf fram réttu meginn.

Þjónustan fær því einkunnina 9

 

Útlit veitingahússins er smekklegt en það er í fallegum sal. Glös og hnífapör voru mjög vel pússuð og borðin voru snyrtilega uppdekkuð. Sérvéttur með brotum eru notaðar á salnum. Hávaði var í salnum en var það líklegast vegna þess að hann var fullur, þrátt fyrir það var hægt að halda uppi samræðum með góðu móti og er það líklegast vegna þess að salurinn er ekki eins opinn og á mörgum öðrum stöðum, er hann því ekki eins hljóðbær, t.d. er veggur/skápur í miðjum sal sem brýtur aðeins upp hljóðið. Engin tónlist var á staðnum sem var bara mjög notalegt. Verð á forrétti og eftirrétti var í lagi en verð á aðalrétti var fullhátt miðað við gæði

Einkunn fyrir annað er því 9

 

Samanlögð einkunn verður því: 8,6


Matargagnrýni 29. maí 2013 -- Strikið

 

Undirritaður fór á Strikið 29. maí 2013.

 

Forréttur var: Hvítlauksbrauð.

Rétturinn var framreiddur á passlegum disk og var hann hafður snyrtilegur. Smá salat fylgdi með brauðinu og voru hlutföll í lagi. Hinsvegar höfðu matreiðslumenn farið full sparlega með bæði hvítlaukinn og ostinn þannig að rétturinn var ekki nógu bragðmikill. Rétturinn virkaði eins og forréttur á að gera þ.e. að vekja matarlystina hjá manni. Biðtími var hæfilegur (6 mín.)

Forrétturinn fær því einkunina: 8

 

Aðalréttur var: Grímseyjarsvartfugl með bláberjasósu.

Rétturinn var framreiddur á passlegum diski og var skammturinn hæfilega stór. Bragð réttarins var gott en því miður ekki nógu mikið, matreiðslumenn staðarins mættu vera örlítið duglegri með kryddbaukana. Skammtastærðin var í lagi en hlutföllinn voru ekki alveg rétt, kartaflan var aðeins of lítil og aðeins meira grænmeti hefði mátt fara á diskinn. Grænmetið var haft undir kjötinu sem, eins og undirritaður áður hefur talað um, undirrituðum ekki þykir hæfilegur staður en þetta virðist vera mikið í tísku núna. Kartaflan, sem var bökuð, var alveg fullkomin samt sem áður. Rétturinn var því miður ekki nógu heitur þegar hann barst á borðið en biðtimi var samt hæfilegur (10 mín.) auk þess sem diskurinn var kaldur sem kælir réttinn enn meira

Aðalrétturinn fær því einkunina: 5

 

Eftirréttur var: Créme brulée með vanilluís

Rétturinn var borinn fram á passlegum diski og voru hlutföll í lagi. Diskurinn var snyrtilega skreyttur en undirritaður tók reyndar eftir skemmdum í sjálfum disknum sem þykir frekar ósnyrtilegt. Rétturinn var mjög góður en Créme bruléeið var samt aðeins of þunnt. Biðtími var 15 mínútur sem er í lagi þar sem nokkuð var orðið að gera á staðnum á þessum tímapunkti.

Eftirrétturinn fær því einkunina: 8

 

Þjónustan var á heildina litið í lagi en þjónar voru full stressaðir með að taka pöntun frá manni, voru þjónar búnir að koma þrisvar að borðinu áður en undirritaður hafði ákveðið sig. Þegar komið var á staðinn var ekki mikið að gera en þegar komið var að aðalrétti var orðið þónokkuð að gera. Þjónar voru snyrtilegir og mega eiga það að þjónustulundin var góð hjá þeim flestum. Brauð og pestó var borið fram milli rétta og var ábót boðin á það, þjónninn se, gerði það var reyndar mjög þurr í samskiptum. smá ruglingur varð við eftirréttarpöntunina en þjónninn sem stóð að henni náði að bjarga sig vel út úr því og fær plús fyrir það. undirritaður tók eftir því að nokkrum gestum var vísað að óuppdekkuðum borðum sem ekki er gott.

Þjónustan fær því einkunina: 6

 

Veitingastaðurinn var snyrtilegur og smekklega uppsettur, salurinn er hinsvegar full opinn og er því hávaði mikill þegar gestir eru orðnir nokkrir. Hnífapör og glös voru vel pússuð og borðin voru snyrtileg. Tónlist var lágt stemmd þannig að hún varð ekki að truflun. Matseðillinn er hinsvegar illa uppsettur á staðnum og mjög ruglingslegur og þurfti undirritaður aðstoð þjóns til að botna í honum. Aðrir viðskiptavinir heyrðust kvarta yfir köldum mat þannig að það virðist vera viðvarandi vandi á staðnum. Einnig þótti undirrituðum verð of hátt á staðnum þegar að hann rann yfir matseðilinn sérstaklega miðað við gæðin. Verð var semsagt í hærri kantinum og tekur undirritaður nú eftir við skoðun nótu frá staðnum að þjónninn gleymdi að rukka fyrir drykki sem er gott fyrir viðskiptavinin, en sömuleiðis læmt fyrir staðinn.

Annað fær því einkunina: 4

 

Samanlögð einkunn verður því: 6,2

 

Jónas Þór Karlsson

 


Matargagnrýni 8. maí 2013 -- Aurora restaurant (Icelandair hotel Akureyri)

Undirritaður fór á Aurora miðvikudaginn 8. maí 2013.

Forréttur var: Carpaccio.
Rétturinn var framreiddur á viðeigandi diski og var rétturinn mjög snyrtilega framreiddur á disknum. Rétturinn var mjög bragðgóður og sósan/dressingið sem var yfir var alveg einstaklega gott. Skammturinn var ekki of lítill, en það var ekki verið að spara sem er gott, oft fær maður bara tvær ræmur sem lítið gagn er af en þessi skammtur huldi allann diskinn og þannig á það að vera. Það verður að segjast eins og er að þetta er besta Carpaccio sem undirritaður hefur nokkurntímann smakkað. Miðað við að rétturinn kosti 1690 kr. er maður virkilega að fá eitthvað fyrir aurinn.
Forrétturinn fær því einkunnina 10

Aðalréttur var: Hreindýraborgari.
Rétturinn var framreiddur á passlegum diski og var skammturinn hæfilega stór. Hinsvegar hefði undirritaður sett aðeins meiri tómatsósu í skálina sem fylgdi, það var smá pláss eftir en þegar sósan var búinn voru enn eftir 4 kartöflubitar. Bragðið var gott en hamborgarinn hefði mátt vera aðeins meira kryddaður. Hlutföll á disknum voru alveg hárrétt og fær staðurinn hrós fyrir það líka að ekki var verið að spara kjötið í réttinn. Smá pinna hafði verið stungið í miðjan borgarann sem er nokkuð sniðugt því oft þegar maður snæðir svona borgara vill hann liðast í sundur en þarna var komið í veg fyrir það. Frönskurnar sem fylgdu voru alveg eins og franskar eiga að vera (stökkar en samt ekki harðar) og voru þetta ekki venjulegar þunnar sjoppufranskar heldur stór og góð kartöflustykki. Maturinn var vel eldaður og passlega heitur þegar hann kom á borðið. Rétturinn mettaði vel.
Aðalréttur fær því einkunnina 8,5

Eftirréttur var: "Himnesk súkkulaðikaka - stoltið okkar borin fram með mjólkurís" (skv. matseðli) og bolli af Macchiato.
Kaffidrykkurinn var góður og fylgdi súkkulaðibiti með honum.
Kakan var borin fram á hæfilega stórum disk með ískúlunni öðru meginn við kökuna og rjómatopp hinum megin. Diskurinn var snyrtilega skreyttur og hlutföll voru í lagi. Skammturinn var hæfilega stór. Undirritaður hefði þó frekar borið kökuna fram volga en það er kannski smekksatriði.
Eftirréttur fær því einkunnina 9,5

Þjónustan var á heildina litið góð. Lítið var að gera á staðnum en einungis 4 aðrir gestir voru á staðnum. Þjónninn var mjög almennilegur (var bara 1 (enda ekki þörf á fleiri)), Þjónninn vissi nákvæmlega hvað var í réttunum og þykir það mjög gott. Þjónninn gat mælt með réttum (öðrum en þeim dýrasta). Þjónninn fylgdist vel með hvort eitthvað vantaði meðan hann var í salnum en á tíma fannst undirrituðum hann vera full lítið í salnum. Dregið er niður fyrir að manni var ekki boðið upp á tannstöngla en undirritaður tók eftir að það var ekki gert á hinum borðunum heldur. Þjónninn var samt mjög almennilegur (kom vel fram við gestina), og snyrtilegur til fara.
Þjónustan fær því einkunnina 8

Útlit veitingahússins er smekklegt en það er í þessum klassíska Icelandair hotels stíl. Glös og hnífapör voru mjög vel pússuð og borðin voru snyrtilega uppdekkuð. Tauservíettur eru notaðar á staðnum og eru þær fallega brotnar en á borði undirritaðs voru krá (einnig kölluð swinx) og blævængur. Tiltölulega hljóðlátt var á staðnum en það er dálítið hkjóðbært úr eldhúsinu og mátti meðal annars heyra starfsmann syngja. Tónlist var vel stemd á staðnum (en kannski óþörf fyrst starfsmenn séu músikalskir :) ) Gluggi er á hurðinni inn í eldhús og tók undirritaður eftir því að það fyrir innann gengu menn ekki með kokkahúfur sem er náttúrulega ekki gott mál. Verð á forrétti var passlegt þar sem kjötið sem notað er í Carpaccio er frekar dýrt en verð á aðalrétti er full hátt en það er 2650 kr. eftirrétturinn kostar 1450 kr. en miðað við að maður sé á 3ja stjörnu hóteli er það kannski ekki svo slæmt
Einkunn fyrir annað er því 7,5

Samanlögð einkunn verður því: 8,7

Matargagnrýni 5/10-2012 -- Satt (Veitingahús á Icelandair hotel Reykjavík natura (áður Loftleiðir))

Undirritaður fór á Satt Föstudaginn 5. otóber 2012
í þetta skipti fékk undirritaður sig einungis eins rétta máltíð

Máltíðin var svokallaður Satt hamborgari (með frönskum kartöflum).
Nafnið á réttinum er svosem eitt það fáránlegasta sem maður hefur séð hversvegna var ekki hægt að kalla þetta bara Hamborgara.
Margt annað á seðlinum hafði svosem líka þetta forskeyti (sjá: http://sattrestaurant.is/sites/default/files/matsedill_Satt-islenska%20okt2012.pdf ).
Rétturinn var framreiddur á fallegum en full litlum diski en hann hefði verið passlegur hefðu þeir ekki troðið ofvaxinni tómatsósuskál á diskinn líka. Hitastigið á matnum var passlegt þegar hann loksins kom á borðið. Rétturinn var samt snyrtilega raðaður á diskinn en undirritaður hefði borið tómatsósuna fram í minni skál sem væri mun passlegri eða hreinlega borið hana fram sér (ekki á diskinum). Magn tómatsósu var alt of mikið miðað við skammtastærð réttsins (sem hefði mátt vera örlítið stærri). Hamborgarinn var pantaður medium en hann myndi flokkast undir rare. Einnig var rétturinn nánast bragðlaus.
Maturinn fær því einkuninna 5

Þjónusta staðarins var alls ekki nógu góð miðað við að staðurinn er staðsettur á 4ra stjörnu hóteli. erfitt var að fá þjón til þess að koma til sín til að aðstoða mann. Einnig tók undirritaður eftir því að þjóninum tókst algerlega að klúðra greiðslu hjóna sem sátu á næsta borðiog mátti koma með reikning til þeirra þrisvar. Undirritaður var ekki einn á ferð en þegar maturinn kom voru bornir fram réttir sem allir á borðinu höfðu pantað nema hvað að réttur undirritaðs var eftir í eldúsinu. Hann kom 5 mínútum á eftir hinum sem á náttúrulega alls ekki að gerast. Samtals var biðtími undirritaðs eftir matnum 30 mínútur. sem er of mikið fyrir hamborgara. Biðja þurfti sérstaklega um tannstöngla sem á ekki að þurfa. Einnig er dregið niður fyrir að ekki allir þjónar töluðu íslensku meðal annars þjónnin sem sá um að taka á móti gestum.
Þegar greiða átti reikningin þótti það mikið mál að skipta greiðsluni milli gesta og þurfti þjónninn að koma með reikning þrisvar til okkar einnig.
Þjónusta fær því einkunina 3

Útlit veitingastaðarins er smekklegt en það er í þessum klassíska Icelandairhotels stíl. Veitingahúsið var þokkalega þrifalegt. Hnífapör og glös voru ekki nógu vel pússuð. Vandamál með staðinn er hvað hann er svakalega opinn en veitingastaðurinn, barinn, anddyri hótelsins og betri stofan er eitt og sama rýmið og var undirritaður búinn að ryðjast inn í afmælispartý þegar hann leitaði að barnum (til að fá sér óáfengan drykk að sjálfsögðu). Mikill hávaði var því á staðnum og var ekki hægt að tala saman nema að öskra á hvort annað þarna inni. Verð á staðnum er alveg út í hött en þessi máltíð kostaði 2.940 kr. með einni malt í gleri á 450 kr. Einnig er nafn staðarins: "Satt" eitt það fáránlegasta sem hægt er að skíra veitingastað.
Einkun fyrir annað er því: 4

Fyrst það var bar á staðnum þurfti undirritaður að sjálfsögðu að prófa hann. Þar fékk undirritaður sér tvo óáfenga kokteila sem voru mjög góðir. Hins vegar man undirritaður ekkert hvað þeir heita. Bar þjónustan var í lagi þegar maður loksins fékk hana, en barinn því miður staðsettur í þessu "alrými". Verð var full hátt en einn óáfengur kokteill kostar 800 kr.
Einkun fyrir bar er því: 7

Samanlögð einkun verður: 3,8

Jónas Þór Karlsson


Matargagnrýni 13. júlí 2012 -- Greifinn Akureyri

Undirritaður fór á Greifann föstudagskvöldið 13. júlí 2012.

Forréttur var Moarella stangir með salsasósu
Rétturinn var snyrtilega framreiddur á passlegum diski og hlutföll voru í lagi. Bragð var gott líka og maturinn var passlega heitur þegar hann var kominn á borðið
Forrétturinn fær einkunnina 10

Aðalréttur var Bérnaise steik ("Að hætti Bérnaise bræðra" á matseðli) með grænmeti og frönskum kartöflum
Rétturinn var snyrtilega framreiddur á passlegum diski. Hitastig var passlegt þegar rétturinn kom á borðið. Skammturinn var passlegur að stærð en kokkurinn hefur eitthvað misskilið hinn klassíska "disk" sem öllum er kennt en samkvæmt honum á hlutfall grænmetis, kjöts og kartöflur að vera 1/3. Hlutföllin voru hinsvegar 1/4 kjöt, 1/4 kartöflur og 1/2 grænmeti þar sem að það var salat á diskinum en undir steikinni leyndist einnig steikt grænmeti sem undirritaður vill helst geyma á öðrum stað en undir steikinni en það er kannski smekksatriði. Saltflögum hafði verið stráð yfir til skrauts en það var kannski full mikið. Sósan fylgdi í lítilli skál á disknum en að mati undirritaðs hefði mátt fylgja aðeins meiri sósa þar sem hún ekki dugði alveg fyrir allan skammtinn. Steikin var pöntuð medium steikt en annar bitinn var rare meðan hinn var í lagi
Aðalrétturinn fær einkunnina 6,5

Eftirrétturinn var Volg súkkulaði kaka með ís og rjóma
rétturinn var mjög snyrtilega framreiddur á passlegum diski. á matseðlinum stóð volg súkkulaðikaka en hún var í raun frekar heit því hún kom beint úr ofninum en það skemmdi sko ekki fyrir. Hlutföll voru alveg eins og þau eiga að vera og var rétturinn hreint út sagt gómsætur
Eftirrétturinn fær einkunina 10

Þjónustan var á heildina litið góð. Mikið var að gera á staðnum og var biðtími eftir borði 25 mínútur (þjónn í móttöku gaf upp 15-20 mínútna bið). Greinilegt var að álag var á starfsfólki þar sem það gleymdist að láta undirritaðan fá drykkina sína (vatn og gos) en þjónninn sá það þegar hún kom með forréttin og var snögg að kippa því í lag. Bið milli forréttar og aðalréttar var full löng en hún var 25 mínútur. Þjónar voru mjög almennilegir og komu með tannstöngla án þess að það þurfti að biðja um það.
Þjónusta fær einkunnina 8

Útlit veitingahússins er mjög smekklegt og var það mjög snyrtilegt og þrifalegt (sérstaklega miðað við hvað var mikið að gera). Hnífapör og glös voru vel pússuð. Eitt vandamál er þó við þennan stað og er það hávaðinn sem alltaf er þarna og er það líklegast vegna þess að salurinn er svona opinn og mikið af fólki sem talar saman gefur náttúrulega mikið hljóð frá sér. verð er í lagi en svona máltíð með 1/2 l af gosi og 10% KEA korts afslátt (sem veitingahúsið að sjálfsögðu fær prik fyrir) kostar 7.370 kr.
Einkunn fyrir útlit, þrif, verð og frið er því 8

Samanlögð einkunn er því 8,5

Matargagnrýni 18. júní 2012 -- Linda steikhús - Akureyri

Undirritaður fór á Lindu steikhús að kvöldi mánudagsins 18. júní 2012.

Forréttur var reyktur og grafinn lax með ristuðu brauði og sinnepssósu
Rétturinn var fallega framreiddur en var á frekar óheppilegum diski þar sem hann rétt svo komst fyrir þar sem diskurinn var langur og mjór og var varla pláss til að skera brauðið í sundur. Magn var í jafnvægi á sneiðinni með grafna laxinum en reykti laxinn var yfirþyrmandi mikill á hinni sneiðinni. smá dúskur af klettasalati var í miðjunni sem var ágætt.
Forrétturinn fær einkunnina 8.

Aðalréttur var T-Bone steik með bakaðri kartöflu og kryddsmjöri
Rétturinn var framreiddur á of stórum diski að mati undirritaðs og var það líklega orsökin að því að steikin var orðin pínu köld þegar hún loksins kom á borðið. Bakaða kartaflan var í raun ekki bökuð kartafla heldur fondant kartafla sem er elduð öðruvísi en átti hún kannski ekkert síður við með þessum rétti. Kryddsmjörið var haft ofan á steikinni sem undirritaða þykir afar klaufalegt þar sem það átti að vera með kartöflunni en það var farið að bráðna yfir alla steikina. Steikin var frekar bragðlítil og var fitukanturinn ólseigur og jaðraði við óætur. Grænmeti hafði verið steikt og geymt undir steikinni á diskinum en undirritaður hefði nú frekar haft það sér á diskinum. Einnig voru tveir aspasstiklar á diskinum en þótti undirrituðum það alls ekki eiga við með svona steik. Maltíðin var ekki að metta almennilega og hlutföll voru ekki í lagi þar sem kartaflan var bara lítil hálf kartafla
Aðalrétturinn fær einkunina 4

Eftirréttur var ís og marengs með rjóma og lindu ískexi
Rétturinn var framreiddur fallega á passlegum dessertdiski. Hlutföll voru í lagi nema að full lítið var af ískexi.
Eftirrétturinn fær einkunnina 9

Þjónustan var á heildina litið góð en þjónninn var full fljótur að spyrja hvernig manni líkaði matinn og frekar erfitt var að ná í hann til að fá tannstöngla. Einnig heyrðist hann rökræða við aðra viðskiptavini sem voru ekki sáttir með matinn.
Þjónustan fær því einkunnina 7

Útlit veitingahússins var smekklegt og það var mjög þrifalegt en hnífapörin máttu vera betur pússuð verð var einnig of hátt miðað við gæði en svona máltíð kostar (m 1/2 l gos) 8.540 kr
Einkunn fyrir útlit, þrif og verð er því 7

Samanlögð einkunn verður því 7

Jónas Þór Karlsson

Uppskrift =>Gratíneraðar kartöflur

 

Fyrir 4

Ca. 1,2 kg kartöflur

½ lítri rjómi

2 lauka

Hvítlaukur

2 tsk. Salt

Pipar


Aðferð

Skrælið Kartöflur og lauk og skerið í sneiðar (eða Kubba). Setjið kartöflur og lauk lagskipt í eldfast mót, kryddið og hellið rjóma yfir. Setjið í ofnin (ca. 200°C) i ca. 1 klst. Það getur verið góð hugmynd að hræra í þeim svo þær ekki brennast á yfirborðinnu.

 

Verði ykkur að góðu

 


Smá könnun

Er stemmning fyrir því að ég byrji að setja uppskrifir inn aftur

endilega skrifið ummæli :)


Uppskrift dagsins 5/5-2009 => Mexíkósk kjúklingasúpa

Innihald: (fyrir 4-6 manns)
400 gr kjúklingakjöt
1 msk. olía
1 stk laukur
6 stk plómutómatar skornir í bita
100 gr blaðlaukur, smátt saxaður
1 rauð paprika, smátt söxuð
1 stk grænt chilli fínt saxað
2 tsk paprikuduft
3 msk tómatpurre
1,5 lítri kjúklingasoð (vatn og teningur)
2 dl. salsasósa
100 g rjómaostur
Sýrður rjómi, nachos-flögur og mexikóostur rifinn.

Aðferð:
 
Steikið saman í olíu kjúklingakjötið, laukinn, blaðlaukinn, paprikuna, grænt chilli og plómutómatana. Bætið í paprikudufti og tómatpurré, blandið vel saman. Hellið saman við kjúklingasoðið og látið sjóða í 15- 20 mínútur við vægan hita. Bætið salsasósu í súpuna ásamt klípum af rjómaostinum. Látið sjóða í 3-5 mínútur við vægan hita. Berið súpuna fram með sýrðum rjóma, nachos flögum og rifnum mexikóosti.
 
Verði ykkur að góðu!

Næsta síða »

Um bloggið

Jónas Þór Karlsson

Höfundur

Jónas Þór Karlsson
Jónas Þór Karlsson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Nýjustu myndir

  • Jóhanna
  • Markó að seigja Helgu hvar skíðasafnið er
  • Ræstingarkonurnar
  • Ein að afgreiða
  • Man ekki hvað hún heitir :)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 24065

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband